Tilvísun í Kjallaragrein Dagblaðsins í dag

Skundum á Þingvöll
 
Kjallari
 
Lýðræði grundvallast á þrískiptingu valds. Alþingi er hugsað sem lagasmiðja og lögin síðan send til ráðherra sem sjá um að lögin komist í framkvæmd. Kastist í kekki höfum við svo dómsvald sem á að vera óháð alþingi og ráðherrum, það er löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi. Á Íslandi er þessi þrískipting valds í molum. Ráðherrar, það er framkvæmdavaldið haga sér eins og einræðisherrar og senda alþingi samþykktir og lagafrumvörp sem þeir kappkosta að verði að lögum. Sömu menn hunsa álit umsagnaraðila um hæfi manna til dómarasætis og velja fólk eftir hentisemi. Þannig er ráðherravaldið orðið að miðpunkti og alþingi og dómsvald afleggjarar þess.
 
Annar hornsteinn lýðræðis eru kosningar. Þær eiga að tryggja eðlilegt gegnumstreymi þingmanna og endurnýjun. Flokkarnir geta lítið breytt bókstafamerkingum almennings á sjálfan kosningadaginn og nýta því aðrar leiðir til að minnka áhrif fólksins. Það er gert með því að hindra eðlilegt frammistöðumat á verkum þingmanna. Í stað þess að hafa í höndum almennra flokksmanna er þess vandlega gætt að innsti kjarninn ráði að mestu. Uppstilling er ákveðin af innmúraðri flokksklíku en prófkjör skipulögð þannig að fyrirsætir þingmenn halda töglum og höldum. Enda telst til tíðinda komist nýtt fólk inn á lista. Flokksræðið kom berlega í ljós eftir ömurlegan viðskilnað síðustu ríkisstjórnar, ótrúlega margir skoluðust aftur inn í Alþingishúsið og sitja áfram eins og ekkert hafi skorist. Áfram studdir af litlum flokkskjörnum en almenna skírskotun hafa þeir enga.
 
Mörg umliðin ár hafa stjórnarhættir sem þessir tíðkast á Íslandi. Í góðærinu lét fólk sér þetta lynda en nú er annað upp á teningnum. Virðing alþingis er svipur hjá sjón, traust á sömu stofnun þverrandi og þolinmæði þrotin. Tregða gömlu flokkana til endurnýjunar, ekki bara á mannskap heldur líka vinnulagi, er að ganga að lýðræðinu dauðu. Málsvarar breytinga missa allt flug bara við að fara inn í Alþingishúsið og gömlu gammanir éta upp hræin.
 
Lausnin er að færa Alþingi aftur á Þingvöll. Á þessum fegursta þingstað í heimi er sagan öll og nú þarf einmitt að hnýta við, búa til meira. Lýðveldinu var fagnað á Þingvöllum 1944, þar voru afar okkar og ömmur í grenjandi rigningu og tóku við fjöregginu sem nú er orðið fúlt af okkar völdum. Skundum því á Þingvöll, verpum nýju eggi og skilum almennilega af okkur. En fyrst þarf að moka út.
 
Ég er svo sannarlega sammála þessari Kjallaragrein! Ég hef verið að skrifa um þetta efni í nokkra mánuði. Ég tel að svo sannarlega sé kominn tími til að endurvekja heitin okkar saman. Setja eftirvæntingu og samhyggð í fólkið.
 
En fyrst þarf að moka út eins og segir! Síðan að setja af stað stórhátíð og síðan að færa alþingi á Þingvöll. Allt kemur þetta smátt og smátt...........
 
 
 
Skoðið "Okkar Ísland skjalið sem hefur verið unnið upp úr hugmyndum mínum af blogginu og heima í tölvunni:
Eru hugmyndir í "Okkar Ísland" óraunhæfar? Eða væri hægt að gera eitthvað við þær og þróa áfram? Verið er að setja "Okkar Ísland" í 38 síðna bækling sem hægt væri að fá sent. Möguleiki væri að panta (ókeypis) með því að setja nafn og heimili á netfangið: gudni@simnet.is

______________________  "Okkar Ísland"   ________________

Hér er 38 blaðsíðna skjal sem er með grunnhugmyndir leikmanns um stjórnsýslu og viðréttingu landsins úr kreppunni.

Ath. "Okkar Ísland" byggist á því að íslendingar taki á málum sínum sjálfir!

Hér er 1.03 af "Okkar Ísland" skjalinu í Word  .doc (skjalið í heild með viðbætum og nýjum hugmyndum á réttum stað)

Hér er 1.03 af "Okkar Ísland" skjalinu í nýrra Word .docx skrá (skjalið í heild með viðbætum og nýjum hugmyndum á réttum stað)

 http://www.mediafire.com/?2yego20ndmz

_________________________________________________

 

 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband