Hvernig getum við breytt á Íslandi fyrir alvöru?

Eftir að hafa gengið í gegnum allt hrunið, mótmælin og óróann sem þátttakandi í mótmælum fór ég að hugsa út í hvar og hvernig það sé hægt að breyta þjóðfélaginu. Enda er ég langt í því frá ánægður með þann mjög litla árangur sem hefur náðst. Ég komst að þeirri niðurstöðu að til þess að við eigum að eiga þess kost að breyta einhverju fyrir alvöru þá þurfum við að ganga í að breyta grunni þjóðfélagsins fyrst. Síðan kemur hitt fyrir alvöru á eftir. Til þess þarf fyrir alvöru að breyta stjórnsýslunni og ná fram alvöru nálgun á almenning í landinu.

Það þarf að losa um höftin, völdin og tökin. Stórauka hin mannlegu gildi í þjóðfélaginu og setja þau inn í stjórnarskrána. 

Það er alveg ljóst að stjórnmálamenn munu lítið sem ekkert gera til að breyta þeim venjum sínum að vinna að eigin geðþótta án þess að taka tillit til þess fólks sem kaus þá til starfa. Það þarf að losa hin miklu tök sem stjórnmálamenn og flokkar hafa á íslensku þjóðlífi og breyta þjóðfélaginu á þann hátt að tekið verði tillit til vilja almennins miklu meira. Til þess eru jú stjórnmálamenn kjörnir að vinna fyrir þegnana, almenning í landinu. Stjórnmálamenn og flokkar hafa þannig alltof mikil ítök í stórgölluðu stjórnkerfi.

Ég hef nefnt þetta aðeins í skjali mínu: "Okkar Ísland" 

En til þess að ég geti fyrir alvöru haft einhver áhrif er ég farinn að skipta mér af og taka þátt í stjórnarskrármálum eins og ég get. Í þeim tilgangi hef ég mætt á nokkra fundi hjá Stjórnarskrárfélaginu vestur í Hugmyndahúsi Háskólanna. 

Í dag tók ég síðan þátt í Málþingi um hvað eigi að setja inn í nýja Stjórnarskrá sem haldið var í Skálholti. Ég lagði af stað um klukkan 08.00 í morgun í blíðskaparveðri og var mættur á staðinn vel áður en þingið hófst.

Mæting á þingið var nokkuð góð og var fullur salurinn í Skálholtsskóla. Þingið hófst síðan á eftirfarandi framsögum:

  • Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla setti málþingið og var jafnframt málþingsstjóri.
  • Ragna Árnadóttir dóms- og mannrétindamálaráðherra fjallaði um endurskoðun stjórnarskrárinnar og stjórnlagaþing.
  • Jón Kristjánsson, fyrrv. ráðherra, fjallaði um reynsluna af starfi stjórnarskrárnefndar þeirrar er hann veitti formennsku á árunum 2005-2007. Hvað gekk vel og hvað fór úrskeiðis? Hvað er vænlegt til árangurs?
  • Þorsteinn Magnússon, form. undirbúningsnefndar Stjórnlagaþings fjallaði um undirbúning stjórnlagaþings.

 Klukkan 11.30 fóru svo fjórir vinnuhópar í gang, hér kem ég inná verkefni þeirra:

 1. Hvernig nýtum við reynslu annarra þjóða? Hópstjóri Ragnhildur Helgadóttir, prófessor.

Margar þjóðir hafa sett stjórnarskrár, sumar frá grunni, á undanförnum 20 árum.  Hér má t.d. skoða viðauka 4 í skýrslu nefndar Jóns Kristjánssonar. Þjóðfundar- og stjórnlagaþingsfyrirkomulagið er h.u.b. einstakt en engu að síður verðum við að nýta reynslu annarra þjóða. Þá vakna ýmsar spurningar: 

  • Hvað reyndist vel í þeirra ferli? 
  • Hvaða pytti þarf að varast? 
  • Hvert eigum við að horfa? Á að horfa sem víðast eða þurfa einhverjar forsendur að vera sameiginlegar?
2. Samráð við þjóðina. Hópstjóri Geir Guðmundsson, form. Stjórnarskrárfélagsins.

Hvernig ættu fjölmiðlar, stjórnvöld, stjórnlaganefndin og stjórnlagaþingið sjálft að miðla upplýsingum til þjóðarinnar bæði í aðdraganda þingsins og í starfi þess? Hvernig á að virkja þjóðina og kalla eftir hugmyndum? Hugbúnaður til að halda utan um hugmyndir sem kveikna kunna víða í þjóðfélaginu. Hvernig á að standa að þjóðfundi?

 3. Getur stjórnarskrá breytt pólitísku siðferði? Hópstjóri Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Síðustu misserin hafa margir haft uppi væntingar um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár, jafnvel nýs lýðveldis, til þess að skapa „nýjan sið“. Þá er mikilvægt að hafa í huga að stjórnarskrá mælir fyrir um stjórnskipan en er ekki eiginlegur siðasáttmáli samfélags nema að mjög afmörkuðu leyti. Góð stjórnarskrá varðar leiðina að góðri stjórn, stjórnarstofnunum, mannréttindum og lýðræði. Fjallað verður um hvað einkenni góða og siðlega stjórnskipun og hvaða hlutverk lög og reglur geta haft til að bæta siðferði í samfélagi.

 4. Rammi um innihald stjórnarskrár. Hópstjóri Þorkell Helgason, fyrrv. próf.

Teiknaðar verða upp útlínur að stjórnarskrá og fjallað um möguleg tilbrigði. Tíunduð verða helstu álitamál. Keppt verður að myndrænni framsetningu efnisins.

Eftir að hafa hugsað mikið um það í hvaða hóp ég átti að skrá mig í við netskráninguna þá ákvað ég á endanum að velja hóp 3. Getur stjórnarskrá breytt pólitísku siðferði? 

Helgast það til af miklum áhuga mínum af efninu. Enda hef ég skrifað dálítið um þessi atriði í skjali mínu "Okkar Ísland"  sem fylgir hér neðst í þessari grein.

Hér eru punktar úr skjalinu um siðferðið eins og tildæmis um traust:

 Hvað er traust?

Traust milli einstaklinga

Að halda loforð

Treysta öðrum fyrir hlutum

Traust grundvallast á samskiptum

Samkvæmni

Traust á fagmennsku

Sjálfstraust

Öryggi

En þessi atriði að ofanverðu eru þáttur í samskiptum fólksins við stjórnendur landsins sem það velur til starfa og þannig partur af siðferði stjórmálamanna gagnvart almenningi.

Síðan kem ég dálitið inn á þann þátt hvernig stjórnmálamenn og flokkarnir hafa brugðist almenningi í byrjun skjalsins.

Þó ég hafi tekið þátt í þessum umræðuhópi þá hefði ég samt viljað líka taka þátt í hópi 

nr. 1: Hvernig nýtum við reynslu annarra þjóða?

Meðal annars vegna þess að ég er dálítið á móti þessum hugsunarhætti að skoða í stjórnarskrár annara landa til þess eins að geta koperað þær og pastað inn í okkar íslensku stjórnarskrá. Vissulega er margt gott í stjórnarskrám sumra landa en það er þó alls ekki víst að það nýtist okkur vel eða sem skyldi. Eiginlega er ég dáltítið hræddur um að við munum reka okkar á með þau atriði sem við hugsanlega veljum að nota úr þeim. Helgast það nokkuð af þeirri hugsun minni að Stjórnarskrá Íslands eigi að vera SÉRSTÆÐ og sér íslensk frekar en HEILDSTÆÐ .

Ef ég mun eiga þess kost að koma að vinnu á nýrri Stjórnarskrá Íslands þá mundi ég byrja á að taka inni í skrána aðeins til að byrja með hugsanir mínar og hugmyndir annara íslendinga hvað þeir vilji hafa inn í Stjórnarskránni sem er séríslenskt. Þannig mundi ég vilja koma að þeirri vinnu með eldmóð og krafti til að gera eitthvað algjörlega stórkostlegt og fyrir alvöru mannlegt fyrir Ísland. Þetta er svona svipað og einhverskonar ofurástand því málið er svo rosalega miklvægt fyrir framtíð okkar allra. 

Síðan er kosturinn að líta inn í Stjórnarskrár annarra landa aðeins viðbót á vinnuna og hugsað sem hliðsjón á henni, en alltaf með þeim huga hvort að þau atriði séu hentug fyrir Ísland. Það er þó  aðeins gert með þeim huga að passa sig á að ofgera ekki hlutunum heldur vinna með því hugarfari að sérgera okkar eigin Stjórnarskrá og nota aðeins smáatriðin þar sem við hugsanlega getum.

Að vinna nýrri stjórnarskrá fjallar um margt, eins og tildæmis að finna leiðir fyrir almenning að setja aðhald á stjórnmálamennina. Passa upp á það sama komi ekki fyrir aftur í íslensku þjóðlífi. 

Svo virðist vera að það sé almenningur sem þurfi að taka þessi atriði að sér því ekki eru jú stjórnmálamennir að taka af skarið og breyta venjum sínum. En, áttum okkur á því að þetta er mikið og vandasamt verk. Stjórnlagaþingið þarf að vinna mikið starf við að breyta Stjórnkerfi Íslands og gera það skilvirkara, losa um völdin og skilgreina vel hver störf stjórnsýslunnar eigi að vera. Sérstaklega þó þann hluta sem heyrir undir alþingismenn sem og mannréttindamálin. 

Ég hef dálítið verið að hugsa á þeim nótum hvort við getum ekki notað tækifærið og búið til alvöru sér íslenska Stjórnarskrá. Eitthvað nýtt sem allur heimurinn mun taka eftir! Ég er sjálfur að vinna að því að sjá hvort við getum ekki hreinlega endurskoðað lýðræðið og gera það miklu almennara. Þar að segja, búa til ALMANNALÝÐRÆÐI.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er hvergi lærður í þessum efnum heldur hef óbilandi áhuga á málinu.

Nú þurfum við öll að taka okkur til og hugsa vel um þessi mál. Helst að taka þátt á einhvern hátt. Jafnvel þó við séum ekki valin inn á Þjóðfund um málið. Við erum jú að velja okkur grunninn að eigin framtíð!

 Gerum STÓRKOSTLEGA og séríslenska Stjórnarskrá! Eitthvað frábært sem enginn í heiminum hefur gert!

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég vona fyrir alvöru að fólk vakni og átti sig á að gera nýja Stjórnarskrá snýst jú aðeins um Ísland sjálft.

Því þetta er aðalatriðið að sjá hvað það er að vera íslendingur!

Guðni Karl Harðarson, 28.8.2010 kl. 21:59

2 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ég er mest hrædd um að grein um sjálfstæði og fullveldi Íslands í verði felld niður til þess að liðka fyrir ESB aðild, en samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er óheimilt með öllu að afhenda fullveldið til annarra ríkja eða ríkjasambanda eins og ESB er.

Guðrún Sæmundsdóttir, 28.8.2010 kl. 22:41

3 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

að getur vel verið að þau muni reyna það.

Einn liðnum þeim 7. í lögunum um stjórnlagaþing stendur:

Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.

Ég er satt best að segja mest hræddur um þennan lið. 

Við sem erum á móti inngöngu í ESB verðum að standa saman að verja Ísland. Í því felst að taka þátt í að móta nýja Stjórnarskrá frekar en að hunsa!

Guðni Karl Harðarson, 28.8.2010 kl. 23:28

4 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Í bloggrein þessari stendur SÉRSTÆÐ fremur en HEILDSTÆÐ!

Á ég þá við að hver þjóð hefur fyrst og fremst sérstöðu í samfélagi manna. Það sem gerir þjóðina einstaka. Síðan er þessi séstaða blönduð inn í heildstæðuna. 

Hver og ein þjóð er sérstök með sína menningu og stjórnarhætti innan heildarinnar. Síðan er heildin þjóðarinnar fyrst og fremst en þar á eftir heild innan alþjóðasamfélagsins, eftirá.

Á þessum atriðum átta margir ESB sinnar sig ekki á. Þau halda mörg hver að við séum þjóðernissinnar og þannig í niðrandi merkingu sem eitthvert öfgafólk sem það er alls ekki.

Guðni Karl Harðarson, 28.8.2010 kl. 23:35

5 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Hinsvegar gæti verið að ég verði að loka fyrir athugasemdir á svona færslur hjá mér framvegis. Aðeins vegna þess að ég gæti verið sakaður um áróður gegn ESB hjá stjórnarskrárfélaginu. En ég við megum setja link á bloggfærslur inn á umræðuhópinn.

Verð að minnsta kosti að finna leið til að koma Stjórnarskrárbloggi mínu áleiðis án þess að vera sakaður um eitthvað svoleiðis.

Guðni Karl Harðarson, 28.8.2010 kl. 23:41

6 Smámynd: Tryggvi Helgason

Íslendska stjórnarskráin er að flestu leiti ágæt, og hún er íslendsk og "sér-íslendsk" að öllu leiti að mínu mati og þarf litlu að breyta.

Það sem aflaga hefur farið í ýmsu, - svo sem efnahagshrunið, - var ekki afleiðing af einhverju í stjórnarskránni. Það hefur öllu fremur vantað að það væri farið eftir því sem stendur í stjórnarskránni, svo sem að valdið sé þrískift. Er það ekki brot á stjórnarskránni að sami maður sé bæði þingmaður og ráðherra,... það er, að þingmaður samþykki lög á Alþingi og fari síðan upp í ráðuneyti, sem ráðherra, til þess að stjórna samkvæmt lögunum.

Það er ekki víst að "Stóri Skellur", (bankahrunið), hefði nokkurn tíma komið til, ef farið hefði verið eftir stjórnarskránni, og valdið hefði verið skírlega skift. Þá hefðu valist menn úr atvinnulífinu í ráðherrastöður (en ekki þingmenn) en ef einhverjir þingmenn hefðu valist í ráðherrastóla þá hefðu þeir hinir sömu orðið að segja af sér þingmennsku.

Og mér er spurn; er það ekki "aðal breytingin" sem þarf að gera á stjórnarskránni, - það er, að farið verði eftir því sem stendur skýrt skrifað í stjórnarskránni ?

Tryggvi Helgason, 29.8.2010 kl. 14:54

7 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Sæll Tryggvi,

Þú skrifar:>Íslendska stjórnarskráin er að flestu leiti ágæt, og hún er íslendsk og "sér-íslendsk" að öllu leiti að mínu mati og þarf litlu að breyta. 

Það vita flestir að okkar gamla stjórnarskrá er Dönsk, sem við tókum upp óbreytta, einmitt á óróatímum í heiminum.

Það er mjög margt sem mætti breyta í stjórnarskránni tildæmis að skilgreina miklu betur þetta þrískipta vald og meira segja má hugsa sér fjórða valdið. Síðan má alveg setja aðhald á stjórnmálamennina sem og setja afmörkuð svið á stjórnsýsluna. 

Einnig má búa til nýtt lýðræði að fara eftir. Alvöru lýðræði en lýðræðisákvæði eru þverbrotin á fólki í þjóðfélaginu. Síðan eru það mannréttindamálin. Það er mjög naumt um þau í stjórnarskránni okkar. Síðan þarf að fara yfir hlutverk forsetans. 

Endilega komdu við hér á bloggið mitt á næstunni sem og nýja vefsíðu stjórnarskrárfélagsins þegar að hún kemur í gagnið.

Guðni Karl Harðarson, 29.8.2010 kl. 19:01

8 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Vel orðað hjá Tryggva.

Hrunið hér var ekki stjórnarskránni að kenna, heldur útrásarvíkingum og EES lögum.

Guðrún Sæmundsdóttir, 29.8.2010 kl. 20:55

9 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Það má vel vera rétt hjá honum.

En hér ríkir sérstakt ofríkis kerfi stjórnmálamanna sem vernda fjárglæpamennina.  

Athugaðu þetta. Það er fullt af fólki sem hefur verið í mótmælum út um allt (þar á meðal ég sjálfur oft), aftur og aftur en lítið sem ekkert gerist til breytinga. Í stað þess að velja þann kost að vinna fyrir alvöru með almenningi þá kusu stjórnmálamennirnir að haga sér eftir eigin geðþótta. Sjáið hvernig staðan er núna. Valdabaráttan um að halda ríkistjórn er þeim mikilvægari en þjóðin sjálf.....

Svo erum við sem mótmælum svo mörg og mismunandi. Lendum mjög oft í rifrildi og getum ekki staðið saman að málum nema eftir atriðum sem nást eftir ótal marga fundi þar sem er þverrifist. Ég hef sjálfur orðið var við þetta.

Svo eru aðrir sem segjast vinna fyrir fólk en eru í reynd að koma sér sjálfum í stöður. 

Svo eru enn aðrir sem segjast vera heiðarlegir en koma svo óheiðarlega fram við fólk. Ég hef líka sérstaklega orðið var við þetta! Og mega þeir taka til sín sem eiga það.

Þessvegna þurfum við að staldra við og dempa okkur niður á grunnþættina til að byggja á. Koma okkur um saman um nýja undirstöðu þar sem réttur almennings er tryggður fremur en ofurvald stjórnsýslunnar.

Það þarf að setja inn nýtt lýðræði almennings. Það er alveg á hreinu.  Síðan að byggja upp frá því.

Guðni Karl Harðarson, 30.8.2010 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband