Mánudagur, 10. ágúst 2009
Skjal Indefence vinnuhópsins komið á vef Alþingis
Hér er slóð á athugasemdaskjal Indefence til Alþingis:
http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?lgt=137&dbnr=620
Hér er úrdráttur úr síðasta hluta skjalsins:
Af hverju er í lagi að segja nei
Lán AGS og Norðurlandanna eru ekki tengd lausn Icesave deilunnar
Því hefur verið haldið fram af stjórnvöldum að erlendir aðilar tengi afgreiðslu Icesave deilunnar við aðrar aðgerðir til bjargar íslenskum efnahag. Þannig blasi við að lausn Icesave sé ein af forsendum þess að lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og norrænna seðlabanka verði afgreidd. Þessi rök eru hins vegar ekki byggð á opinberum samningum og þannig sagði Franek Rozwadowski landsfulltrúi AGS í viðtali við Reuters þann 2. júlí að endurskoðun
Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri ekki háð lausn Icesave deilunnar en benti samhliða á að Norðurlöndin gætu haft fyrirvara. Eins væri spurning fyrir aðildarlönd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvað höfnun Icesave samningins þýddi um vilja Íslands til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Rozwadowski sagði m.a.
The Icesave agreement is not part of the letter of intent for the review and the approval of this agreement in the parliament is not an explicit condition for the review, Rozwadowski said. However, the Nordic countries have signaled that a solution to Icesave is a condition for disbursing the loans that were signed, and these loans are needed as part of the financing of the program.
A parliamentary rejection of the Icesave accord struck with the U.K. and the Netherlands would create a good deal of uncertainty, Rozwadowski said. One question would be how the Nordics would react? Another question, for the broader membership of the Fund, would be: what does a no vote imply about Icelands commitment to meet its international obligations.
Daginn eftir hafði RÚV samband við Seðlabanka Noregs og kom þá í ljós að lán Norðurlandanna eru ekki háð lausn Icesave deilunnar.
Lán Norska Seðlabankans og hinna norrænu bankanna sé því ekki tengt afgreiðslu Icesave-samningsins. Því sé það Gjaldeyrissjóðsins að stíga næsta skref. 10
Einu áhyggjur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem eftir standa eru því hvort Ísland ætli sér að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar verði frumvarpið fellt. Það má auðveldlega slá á þessar áhyggjur með því að lýsa yfir vilja Íslendinga til að endursemja á grunni Brussel viðmiðanna samhliða því sem Icesave ábyrgðin er felld. Þetta þýðir með öðrum orðum að hægt er að fellaIcesave samkomulagið án þess að hafa áhrif á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með útborgun lána hans og Norðurlandanna. Séu til aðrir samningar eða hafi íslensk stjórnvöld verið beitt óeðlilegum þrýstingi er nauðsynlegt að það komi fram. Að öðrum kosti er hægt að fella Icesave frumvarpið og einfaldlega semja upp á nýtt.
Niðurlag
Alþingi ber að hafna fyrirliggjandi frumvarpi
Af ákvæðum 3. gr. samninganna sést að það er ein grunnforsenda þeirra að Alþingi veiti ríkisábyrgð fyrir samningunum. Samningarnir taka ekki gildi nema Alþingi veiti ábyrgðina. Þannig hefur Alþingi það í hendi sér að fella umrædda samninga og tryggja þannig að aftur verði sest að samningaborðinu. Eftir ítarlega skoðun InDefence hópsins á Icesave samningunum, frumvarpi til laga umríkisábyrgð vegna þeirra, skoðun á mati þriðja aðila á verðmæti eigna í þrotabúi Landsbanka Íslands svo og fleiri mikilvægum þáttum er það eindregin skoðun hópsins að Alþingismönnum beri að hafna frumvarpi til laga um ríkisábyrgð á fyrirliggjandi Icesave samingum. Við leggjum ríka áherslu á að þetta verði gert í því skyni að setjast megi aftur að samningaborðinu með fulltrúum Bretlands og Hollands með það fyrir augum að gera samninga sem íslenska ríkið geti staðið við og geri Íslendingum kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
Meginrökin eru að okkar mati augljós. Í fyrsta lagi teljum við að miklar líkur séu á því að íslenska ríkið muni ekki geta staðið í skilum á skuldbindingum vegna fyrirliggjandi Icesave samninga þegar greiðslur eiga að hefjast eftir átta ár. Í öðru lagi eru fyrirliggjandi Icesave samningar í miklu ósamræmi við Brussel viðmiðin margnefndu, sem lágu að baki því umboði sem Alþingi veitti ríkisstjórninni til að semja við Breta og Hollendinga um Icesave málið. Eins og margoft hefur komið fram í þessari umsögn, koma Brussel skilyrðin hvorki orðrétt né í anda fram í fyrirliggjandi Icesave samningum. Það er grundvallarskylda allra þingmanna að kynna sér öll gögn þessa máls og þá sérstaklega áætlanir um getu íslenska ríkisins til að standa í skilum á þeim skuldbindingum sem felast í fyrirliggjandi Icesave samningum.
Mikilvægt er að hafa í huga að ríkisstjórnin og Alþingi hafa ólíku hlutverki að gegna gagnvart Icesave samningunum og ríkisábyrgð vegna þeirra. Hlutverk ríkisstjórnarinnar er að finna færa leið í ríkisfjármálum sem jafnframt efnir samninganna. Viðskiptaráðherra og fjármálaráðherrahafa lagt fram áætlanir sem sýna hvernig efna mætti samkomulagið ef tilteknar forsendur efnahagsspár þeirra ganga eftir. Óvissa um þær forsendur eru eðlilega verulegar, þar sem horft er til langs tíma, 8 til 15 ára, á tímum þegar óvissa um allar aðstæður innan lands sem utan eru meiri en verið hafa um langan aldur, að ótalinni óvissu um heimtur úr þrotabúi Landsbankans.
Ríkisábyrgð sú, sem fyrir Alþingi liggur, gildir hins vegar jafnt hvort sem forsendur efnahagsspár ríkisstjórnarinnar ganga eftir eða ekki, og reynir því meira á ábyrgðina sem bresturinn er meiri. Alþingi verður því framar öllu að gæta að því hve líklegt sé að forsendur bresti og hvaða afleiðingar það kunni að hafa. Þarf Alþingi m.a. að spyrja ríkisstjórn og stofnanir hennar hve mikið gefnar forsendur megi breytast til þess að til vanefnda geti komið.
Jafnframt þessu þarf Alþingi að huga vandlega að því hverjar afleiðingar vanefnda geti orðið. Hver er lagaleg staða ríkisins við vanefndir og hver verður samningsstaða þess gagnvart Bretum og Hollendingum í ljósi heimilda vanefndaákvæða samningsins, ef önnur fjármögnun fæst ekki á ásættanlegum kjörum? Hver verður pólitíska staðan og hvert verður hald í svonefndum Brusselviðmiðum? Hafa þau yfirhöfuð eitthvert lagalegt gildi ef til vanefnda kemur? Hver verður fjárhagsleg staða ríkisins við slíkar aðstæður? Og hver verður tiltrú alþjóðasamfélagsins á íslensk stjórnvöld?
Þetta er það mat á áhættu við ríkisábyrgð á Icesave samningunum, sem Alþingi verður að leggjatil grundvallar, og einungis samþykkja ríkisábyrgð ef það telur þá áhættu ásættanlega. Þegar slík áhætta er metin dugar ekki að byggja efnahagsspá á einföldum forsendum, eins og fram koma íminnisblaði fjármálaráðuneytisins um greiðslugetu ríkissjóðs vegna Icesave frá 8. júlí 2009. Sú efnahagsspá byggir á töluverðri bjartsýni varðandi t.d. hagvöxt, tekjuafgang ríkisins, gengisþróun og fólksfjölda. Bjartsýni er vissulega mikilvægur eiginleiki mannsins þegar illa árar, að því leiti sem hún stuðlar að eldmóði og vilja til að vinna sig út úr vanda. Með bjartsýninni þarf hins vegar ávallt að fylgja vænn skammtur af raunsæi ef vel á að ganga. Alþingismenn verða að fara fram á að sjá efnahagsspá sem byggir á breytilegum forsendum, til þess að þeir geti metið hversu vel þarf að ganga í efnahagi Íslendinga svo að forða megi greiðsluþroti ríkisins. Efnahagshrunið á Íslandi má að miklu leiti rekja til óhóflegrar lántöku bankamanna og fjárfesta á grundvelli óhóflegrar bjartsýni um verðgildi og hagvöxt í framtíðinni. Hvernig munu komandi kynslóðir dæma þá einstaklinga sem nú sitja á Alþingi á þessari ögurstundu í sögu þjóðarinnar, ef þeir samþykkja risavaxna fjárhagslega ábyrgð fyrir hönd þjóðarinnar með samskonar ofurbjartsýni og skammsýni að leiðarljósi?
Að mati InDefence hópsins hefur Alþingi Íslendinga aðeins tvo raunhæfa og fýsilega kosti í komandi atkvæðagreiðslu um frumvarp um ríkisábyrgð á fyrirliggjandi Icesave samningunum.
Annars vegar geta þingmenn hafnað frumvarpinu. Ef það gerist er nauðsynlegt að jafnskjótt fylgi í kjölfarið öflugt kynningarstarf, bæði eftir diplómatískum leiðum og í alþjóðlegum fjölmiðlum, þar sem áhersla er lögð á að Íslendingar hafi ekki efnahagslegar forsendur til að standa við fyrirliggjandi samninga og að ríkisstjórnin hafi fullan vilja til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og fara aftur að samningaborðinu. Yfirlýst markmið Íslendinga í slíkum samningaviðræðum ættu að vera að ná fram ákvæðum sem draga úr líkum á því að til vanefnda komi og sem milda afleiðingar vanefnda og leiða til viðunandi samingsstöðu við þær aðstæður.
Hins vegar gætu þingmenn samþykkt ríkisábyrgð á fyrirliggjandi Icesave samningum, en þá með mörgum skýrum fyrirvörum sem staðfesti að núverandi samningar eru óviðunandi. Jafnframt verði fyrirvararnir að endurspegla þær samningsskuldbindingar Bretlands og Hollands sem felastí Brussel viðmiðunum, sem núverandi samningar fela ekki í sér .
f.h InDefence hópsins
[sign.]
Dr. Agnar Helgason, mannfræðingur
[sign.]
Eiríkur S. Svavarsson, hdl. LL.M.
[sign.]
Dr. Torfi Þórhallsson, verkfræðingur
[sign.]
Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur
[sign.]
Ólafur Elíasson, MBA og, tónlistarkennari
[sign.]
Dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur
[sign.]
Jóhannes Þ. Skúlason, kennari
[sign.]
Ragnar F. Ólafsson, sálfræðingur,
[sign.]
Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur
Meginflokkur: Mannréttindi | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:10 | Facebook
Athugasemdir
Eftir að ríkisábyrgð væri neitað þá væri gengið aftur að samningaborðinu! (eins og segir hér að ofan). Síðan væri hægt að semja upp á nýtt með allt öðrum hætti!
Á viðskiptalegum grundvelli! ÁN LÁNA FRÁ BRETUM OG HOLLENDINGUM! En það er hægt!
Guðni Karl Harðarson, 10.8.2009 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.