Hvað er eiginlega fátækt?

Núna þegar að mestu lætin eru frá vegna orða Vigdísar Hauksdóttur langar mig til að setja nokkur orð hér á bloggið mitt um fátækt.

Eitt af því fyrsta sem ég man eftir í lífinu var þegar að brann undan fjölskyldunni þar sem við bjuggum á mótum Skerjabrautar og Nesvegar á mótum Reykjavíkur og Seltjarnarnes. Allt fór. Við björguðumst út á Náttfötunum. Eina sem bjargaðist voru smá föt sem mamma gat hennt í tösku. Okkur var hjálpað niður um stiga sem var lagður upp að glugga á íbúðinni sem var í risinu.  Við fengum að gista hjá afa og ömmu á Hringbrautinni þangað til við fengum annað húsnæði. 

Fátæktin varð sem logi í gegnum líf fjölskyldunnar eftir það. 

Við fengum svo húsnæði vestast á Vesturgötunni í Bragga/Verbúð. Ekki varð nú mikið um húsgögnin þá. Svona aðeins rúmin okkar og nokkrir aumir tréstólar og gamalt borð til að setjast við snæðinginn. Engin stofa, því eldunarbúnaðurinn var sameinaður í eitt hol þar sem við þrjú systkinin sváfum í hinum enda þess. Og aðeins eitt annað herbergi sem var fyrir foreldra okkar. 

Við fluttum alls fimm sinnum á þessum árum þegar að ég var lítill drengur og fram að við fluttum burt frá Hverfisgötu 23 (þar sem nú er lýðveldisgarður) þegar að ég var ný orðinn fjórtán ára. 

Ég man alltaf eftir því hversu oft við vorum að ströggla við að hafa í okkur og á. Mamma átti einn stóran gráan Pott sem hún sauð Kjötsúpuna í. En í hann var oft blandað Kartöflum, smá Gulrótum, Lambakjötsbitum og afgöngum frá deginum áður. Oft var nú potturinn sá notaður og sennilega ein sú mesta lífsbjörg okkar. Þá var sko heldur enginn Ísskápur til að geyma matinn í heldur eitt pínulítið Búr með nokkrum hillum.  Stundum var Fiskur á borðum, en það var helst þegar pabbi gat náð eins og einn fisk gefins hjá Trilluköllunum.

Þá var okkur svo sannarlega kennt að meta sem við höfðum. Oft var sig spurt hvað yrði til í matinn daginn eftir. Við áttum tildæmis skilyrðislaust að borða matinn þó okkur þætti hann vondur. Ég man tildæmis alltaf eftir því hvað okkur krökkunum fannst Hræringurinn vondur (Hræringur var blanda af Skyri og köldum Hafragraut og Mjólk sett útá). Ef við ætluðum að neita að borða hann þá var viðkvæðið frá mömmu: "hugsið ykkur fátæku börnin úti í heimi sem fá ekkert að borða". Það voru alltaf einhverjir sem höfðu það verra en við. 

Og Guð minn góður, ekki var nú mikið af fötunum að fara. Enginn lúxus né tískudót heldur var það ódýrasta og nýtingin sett í fyrsta og annað sæti. Oft vildi það til að göt komu á fötin þar sem maður var mikið úti að leika sér. Urðu þá Hnéin og Olnboganir mest fyrir barðinu og götunum. Ekki var þá hlupið til að kaupa ný föt, heldur var tekið sig til og settar bætur yfir. Oft skrautlegar, því stundum varð að grípa til þess sem hendi var næst. Og maður skammaðist sín fyrir að mæta í skólann í stagbættum fötum.

En þrátt fyrir allt þetta var okkur kennt það góða í lífinu. Eins og hvað Kærleikur, Kurteisi, Virðing oig Heiðarleiki væri og hvernig ætti að nota þau góðu Gildi. Og við tókum þau með okkur inn í fullorðins árin.

Svo velltir maður því fyrir sér hvernig aðrir af ættingjum okkar hefðu það. Voru þau fátæk og gætum við gert eitthvað til að hjálpa þeim? Því oft er nú skilningurinn mestur hjá þeim sem þekkja til og vita um hvað málin snúast. Við vissum alltaf að það var fátækt út um allan heim og hvar hún væri mest. En lítið gátum við gert við það. Því það er nú einu sinni þannig að við sjálf þurftum að lifa. 

Svo ef okkur var boðið eitthvað í neyð þá þurfti alltaf að vega og meta hvort ætti að þiggja. Því stoltið var oft yfirsterkara. Og vegna þess var því stundum sleppt að leita aðstoðar til hjálparsamtaka, nema þá í allra mestu neyðinni, þó sem betur fer við þurftum lítið sem ekkert að nota.

Oft er svo erfitt að vega og meta hvar neyðin er stærst og mest. Er hún hjá sjálfum okkur? Ættingjum? Eða úti í löndunum í Afríku? Svo vakna upp ýmsar spurningar eins og tildæmis þær hvað sé hægt að gera við hinni miklu fátækt á vissum stöðum í heiminum? Eigum við fyrst og fremst að hugsa um nálægðina þegar tildæmis óvenju mikil fátækt er á Íslandi og fólk á ekki fyrir allra helstu nauðsynjum eins og mat og fötum? Eigum við að hugsa um fjarlægðina þegar að spurningar koma upp í hugann hvort að hjálp í neyð geri eitthvað fyrir alvöru til að losa burt fátækt? Eða svo er spurningin stærst að geta þó alltaf í voninni að bjarga mannslífum.

En það er svo erfitt að setja peninga í eitthvað sem ekki er vitað nákvæmlega í hvað fara. Og svo eins og það hvort peningunum eða matvælunum verði ekki bara stolið. Svo breytist ekkert. Alltaf sama fátæktin á sum sömu stöðum alveg sama hvað gert er. Því ekki er tekið á vandamálunum eins og að byggja upp þannig að fólk geti notið afrakstur vinnu sinnar með því að rækta sér sín matvæli sjálft. Þó alls ekki megi alhæfa því vissulega á sumum stöðum er  gott fólk að vinna upp og aðstoða fólk fyrir framtíðina til að losna úr langvarandi fátækt. 

Í mínum huga vil ég ekki blanda fátækt á Íslandi saman við fátækustu lönd í Afríku. Við eigum að gera okkar til að búa til sanngjarnt kerfi til að losa okkur út úr fátæktinni hér heima. Að bjóða öllum íbúum á Íslandi uppá sanngjarna afkomu, sanngjarnt kerfi og án ölmusu. Þar sem ekki er alltaf verið að særa stoltið.

Hvað Afríku löndin varðar þá er nú svo að langvarandi fátækt í fjölskyldum þar sem það hefur ekki mat á milli daga, þar hugsar fólk ekki um stoltið, heldur aðeins fyrst og fremst um að lifa. En lítið getum við gert, nema þó að senda einhverja aðstoð. Þá er ég tildæmis að tala um undirstöðu matvæla, eins og hveiti og önnur aðföng sem nýtast fólki til að rækta upp og búa til. Og peningarnir sem fara héðan úr landi ættu að vera notaðir eingöngu í svoleiðis. Því það er sterkasta sem við getum gert.

Í mínum huga þarf því að sinna fátæktinni í Afríku en búa okkur heima á Íslandi við bætt kjör, sanngjarnt kerfi þar sem okkrar fátækt er útrýmt að fullu.

Þessvegna finnst mér þessi tvö mál eigi ekki að vera á fullu að bera saman. Við eigum að hjálpa fólki í ýtrustu neyð í Afríku með þeim formerkjum að við vitum í hvað aðstoðin fer.

Og við eigum jafnframt að útrýma algjörlega fátækt á Íslandi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þú ert drengur góður,  Guðni. Ég hef einu sinni unnið með þér, og ég þekki þína sögu örlítið og man líka eftir honum pabba þínum. Ég man hvað mér þótti ég vera mikill dekurdrengur, þegar ég heyrði um þína hagi.

Fólk á Íslandi er almennt búið að gleyma efnislegri fátækt fyrri ára, og vill fyrri alla muni ekki láta minna sig á hana.

Þú hefur gert það vel í þessum pistli þínum. Þetta er falleg færsla!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 31.3.2013 kl. 22:55

2 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Vilhjálmur ekki man ég hvar ég hef unnið með þér.

Hér er bara lýsing á hvernig fátækt var.  Mér finnst alveg sjálfsagt að tengja það við að mjög margir og sí-aukinn fjöldi manns hefur ekki til hnífs og skeiðar þó kannski fátæktin sé öðruvísi að sumu leiti. En þó það sama að því leiti að fólk hefur ekki fyrir mat og nauðsynjum. Þessvegna er lýsingin hvað matnum varðar svo lík.

Eftir og við hrunið hefur fátækt á Íslandi töluvert mikið aukist. Og svo langt því í frá að það sé búið að útrýma henni. Því ekki hefur tekist að gera almennilegt kerfi sem virkar til þess. Heldur frekar notast við ölmusukerfi. 

Guðni Karl Harðarson, 1.4.2013 kl. 01:19

3 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég man það núna að ég var að vinna með þér úti á Granda hjá Reykjavíkurhöfn

Guðni Karl Harðarson, 1.4.2013 kl. 16:21

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Guðni minn.

Að lesa svona einlægni innan um alla frasa nútíma froðuumræðum, er upplifun sem maður var næstum búinn að gleyma. 

Ég hef einu sinni lent í þessu áður, og þá í athugasemd við pistil sem ég skrifaði um Kumbaravogsbörnin.  

Og ákall þeirra um rétt.

Þá las ég orð sem snertum mig mjög.  

Þetta er lífið, þetta er alvara lífsins, sem velmegun og hjóm fékk okkur næstum því til að gleyma.

Hafðu mikla þökk fyrir.

Ég er alveg sammála rökfærslu þinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.4.2013 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband